Posted by & filed under Uncategorized.

Eins og komið hefur fram hér áður hefur Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) síðustu mánuði unnið að stefnu sinni um opið aðgengi. Samkvæmt frétt á vef Rannís er þeirri vinnu nú lokið og munu nýjar reglur með OA ákvæði taka gildi eftir áramót. Af http://www.rannis.is/sjodir/opinn-adgangur/ (OA klausuna í reglum til styrkþega má finna á sömu síðu):

Niðurstöður rannsóknaverkefna, sem styrkt eru, að hluta til eða að öllu leyti úr sjóðum í umsýslu Rannís, skulu birtar í opnum aðgangi. Tilgangurinn er að sem flestir geti notið afurða vísindastarfa sem styrkt eru af opinberu fé á Íslandi. Krafa um opinn aðgang nær til ritrýndra greina en ekki til bóka, bókakafla eða lokaritgerða nemenda. Verkefni sem hlotið hafa styrk úr sjóðum Rannís fyrir janúar 2013 falla ekki undir kröfu um birtingu niðurstaðna í opnum aðgangi. Rannís hvetur þó eindregið til þess að sem flestir vísindamenn birti niðurstöður rannsóknaverkefna í opnum aðgangi. 

Þetta eru auðvitað gleðitíðindi og fyrirtaks jólagjöf til OA-hreyfingarinnar á Íslandi.

Nokkur atriði varðandi þetta útspil Rannís er vert að skoða nánar. Í fyrsta lagi er um að ræða skilyrði frekar en hvatningu (e. funder mandate, sjá http://roarmap.eprints.org): m.ö.o. reglurnar eru “sterkar” að því leyti að aðilinn sem styrkir rannsóknirnar gerir hér beina kröfu um að niðurstöður skuli fara í OA. Þetta er gott mál þar sem reynsla af “veikari” OA-stefnum erlendis hefur sýnt að slíkt virkar ekki og fáir fara eftir þeim. Á hinn bóginn er enn sem komið er óljóst hvernig eftirfylgni verður háttað og hver viðurlögin verða ef ekki er farið eftir reglunum.

Í öðru lagi eru stefna Rannís “græn”, þ.e. hægt verður að uppfylla skilyrðin ýmist með birtingu í OA-riti (gullna leiðin) EÐA með skilum á ritrýndu handriti í opið varðveislusafn (græna leiðin). Reglurnar sjálfar segja ekki til um hvaða  varðveislusöfn megi nota, enda verður það sem og fleiri útfærsluatriði auglýst síðar á vef Rannís. Okkur er hinsvegar sagt að ekki verði gerð krafa um skil í eitthvert ákveðið safn eða söfn (eins og t.d. OA reglur NIH sem kveða á um skil í PubMed Central), heldur megi skila í hvaða varðveislusafn sem er á meðan það uppfyllir kröfur OpenAIRE.

Í þriðja lagi er að finna í reglunum tilvísun í svokallaðan útgáfustyrk. Hægt verður að sækja um allt að 300þús/ári úr sérstökum útgáfustyrktarsjóð til að mæta kostnaði við  að birta í OA-ritum sem rukka birtingargjöld.

Comments are closed.