Mælikvarði á opinn aðgang á Íslandi 2013

Posted by & filed under Uncategorized.

Tilefni þessa fyrsta fréttainnleggs ársins 2014 er pistillinn Opinn aðgangur að nýrri þekkingu sem kom út í Morgunblaðinu fyrir helgi, eftir Ástu Möller og Hauk Arnþórsson hjá Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands.

Pistillinn er fínt innlegg í OA umræðuna. Ásta og Haukur vísa í tvær nýútkomnar íslenskar greinar sem varpa ljósi annarsvegar á rafræna og opna útgáfu fræðiefnis, og hins vegar á útbreiðslu opins aðgangs í íslenskri fræðiútgáfu.

Útgáfa fræðitímarita á Netinu og mikilvægi opins aðgangs

Í fyrri greinininni sem birtist í hausthefti veftímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla rekur Haukur Arnþórsson ýmsa þætti rafrænnar fræðiútgáfu á Netinu, með áherslu mikilvægi faglegra vinnubragða, notkun á réttum hugbúnaði og öðrum slíkum tækniatriðum. Hann vísar þar í reynslu og frumkvöðlastarf stofnunarinnar á þessum vettvangi, en hún hefur gefið út ritið í opnum aðgangi á Netinu síðan 2005.

Stjórnmál og stjórnsýsla tók nýverið í notkun Open Journal Systems útgáfukerfið (OJS) sem er notað af yfir 8 þúsund rafrænum fræðiritum út um allan heim. OJS auðveldar mjög ýmsa tæknilega þætti rafrænnar útgáfu, svo sem að halda utan um ritrýningarferlið, dreifa upplýsingum um birtar greinar í alþjóðlega gagnabanka eins og Directory of Open Access Journals (DOAJ), og skrá DOI auðkenni fyrir greinar til að fá varanlegar vefslóðir á efni ritsins. Þá er Stjórnmál og Stjórnsýsla annað af aðeins tveimur (tímaritið Samtíð er hitt) á landinu sem eru í alþjóðasamtökum OA útgefenda (OASPA).

Mælikvarði á opinn aðgang á Íslandi – staðan 2013

Hin greinin kom út um sama leyti í Samtíð og nefnist The Icelandic Open Access Barometer 2013, eftir þá Ian Watson og undirritaðan sem báðir starfa  í OA Ísland hópnum.

Í greininni eru raktar niðurstöður könnunar sem náði yfir á sjötta tug fræðirita sem gefin eru út í landinu. Athygli vakti að opinn aðgangur er talsvert útbreiddari í íslenskri fræðiútgáfu en talið var. Um helmingur ritanna í könnuninni birtast rafrænt á Netinu, ýmist strax (16 rit) eða eftir allt að 2ja ára birtingartöf (e. embargo)  (9 rit). Hin ritin eru ýmist með lengri en 2ja ára birtingartöf (6 rit) eða koma einungis út á prenti (20 rit).

Könnunin leiddi einnig í ljós að þrjú af hverjum fjórum fræðiritum birta aðallega á íslensku og að á hverju ári koma út um 400  fræðigreinar á íslensku. Því er ljóst að íslenska hefur mikilvægu hlutverki að gegna sem fræðimál, þrátt fyrir fræðimenn séu sterklega hvattir (af matskerfi opinberra háskóla og Rannís) til að birta á ensku í alþjóðlegum tímaritum.

 


Haukur Arnþórsson. Útgáfa fræðitímarita á netinu. Stjórnmál og stjórnsýsla. 9. árg. 2. tbl.  (2013). http://www.irpa.is/article/view/1231

Ian Watson og Guðmundur Á. Þórisson. The Icelandic Open Access Barometer 2013. Samtíð: tímarit um samfélag og menningu. (2013). http://dx.doi.org/10.12742/samtid.2013.6

 

Comments are closed.