Markmið opins aðgangs er að útgefnar greinar fræðafólks og annað fræðiefni séu aðgengilegar óhindrað á rafrænu formi gegnum Internetið. Það er grundvallaratriði að höfundarréttur breytist ekki við útgáfu í opnum aðgangi, heldur er einungis um að ræða að fleirum er gert mögulegt að kynna sér það nýjasta í rannsóknum á einfaldan hátt. Þannig eru vísindi og fræði efld á sama tíma og réttlæti og jafnrétti er haft að leiðarljósi við miðlun þekkingar.

Misjafn skilningur libre OA vs. gratis OA

Búdapest—Bethesda—Berlín

Berlínaryfirlýsingin, sem er skýrust nokkurra samþykkta um opinn aðgang, inniheldur tvíþætta skilgreiningu á „framlagi í opnum aðgangi“. Annars vegar verða rétthafar þess að hafa veitt óafturkræfa og almenna heimild til frjálsar notkunar, afritunar, dreifingar, opinberrar birtingar og gerðar afleiddra verka, svo lengi sem uppruna er rétt getið; hins vegar að framlagið sé í heild geymt í almennt aðgengilegum gagnagrunni sem er haldið við af stofnun sem hefur opinn aðgang og langtímavarðveislu að markmiði sínu.

Þessari sýn á opinn aðgang má lýsa sem hugsjón þeirra sem berjast fyrir opnum aðgangi — markmiði sem stefnt er að. Það er vert að benda á að ókeypis aðgangur er ekki hluti af þessari skilgreiningu.

(Gjald)frjálst

Önnur, og enn sem komið er útbreiddari, skilgreining á opnum aðgangi byggist hinsvegar alfarið á gjaldtöku. Í þessum skilningi er nægilegt að hverjum sem er sé frjálst að lesa framlag á netinu án endurgjalds. Lagt hefur verið til að greina á milli þessara skilgreininga með því að kalla þá fyrri libre OA og þá síðari gratis OA. Orðin eru tekin úr latínu, og þýða annars vegar frjálst og hinsvegar ókeypis.


Ólíkar aðferðir tvær meginleiðir til að tryggja opinn aðgang

Gullna leiðin er útgáfa á framlaginu í opnum aðgangi frá upphafi (e. open access publishing). Kostnaður við birtingu er í flestum tilfellum greiddur af aðilum sem styrktu rannsóknina sem hluti af rannsóknarkostnaði, eða að höfundar greiða kostnaðinn beint (e. author pays model). Höfundur heldur að jafnaði höfundarréttinum, í stað þess að framselja réttinn til útgefanda eins og í hefðbundinni útgáfu.

Public Library of Science og BioMed Central eru dæmi um útgefendur tímarita sem vinna alfarið með þessum hætti, en nokkrir eldri útgefendur hafa einnig tekið upp þennan hátt (t.d. Springer). Bæði PLoS og BMC birta allar greinar undir skilmálum Creative Commons Attribution 2.5 leyfisins, sem heimilar nær alla notkun efnisins svo lengi sem höfundar er rétt getið.

Græna leiðin felst í því að framlagið er lagt inn í sérstakt varðveislusafn (e. open repository), ýmist rekið af þeirri stofnun sem höfundur starfar hjá eða annarsstaðar (t.d. PubMed Central), annaðhvort samhliða birtingu annars staðar eða stuttu eftir það. Varðveislusöfn af þessu tagi eru jafnan annaðhvort bundin við ákveðna efnisflokka, líkt og PubMed Central eða arXiv, eða á vegum tiltekinna stofnana, líkt og NASA Technical Reports Server, Skemman og Hirslan á Íslandi. Höfundur sendir varðveislusafninu ritrýnt lokahandrit sem er tilbúið til birtingar. Greinin er síðan gefin út á hefðbundinn hátt og getur höfundur þá valið tímarit sem honum hentar best. Það getur verið tímarit í lokuðum aðgangi eins og t.d. Nature. Greinin er þá aðgengileg bæði í opnum aðgangi í varðveislusafni og í lokuðum aðgangi þess tímarits sem varð fyrir valinu.

Græna leiðin er yfirleitt fær, þar sem 90% útgefenda vísindaefnis hafa samþykkt að greinar sem þeir gefa út megi birta samhliða í opnum aðgangi, ýmist strax eða eftir 6-12 mánuða birtingartöf (e.  embargo).

Viðhengi

oa_island_kort_600x300
Filename : oa_island_kort_600x300.png ( )
Caption :